Erindi flutt á bæjarstjórnarfundi 14. desember 2017.

Það er ánægjulegt að segja frá því að þann 6. nóvember 2017 stóð Ungmennaráð Hornafjarðar fyrir öðru ungmennaþingi sínu. Þar mættu um 100 ungmenni og tóku þátt. Þinginu var skipt í tvo hluta, annars vegar fyrirlestra og hins vegar málstofur.

Hugmyndirnar sem komu út úr málstofunum mætti gróflega flokka á sviði fræðslu- félags- og heilbrigðismála. Ræddu þátttakendur vandamál og lausnir í þessum málaflokkum.

Í skólamálum kom m.a. fram mikil þörf fyrir tækifæri í skólum til að læra á lífið, t.d. markvissa og skemmtilega kennslu í lífsleikni og samhæfa jafnvel námskrá þar að lútandi í grunnskólanum og  framhaldsskólanum.

Í öðrum málaflokkum kom fram að mjög aðkallandi væri að fá á fræðslu á breiðum grundvelli þ.e. frá jafningjum, kennurum og fyrirlesurum. Þetta átti m.a. við um andlega heilsu, kynheilbrigði og staðalímyndir.

Einnig bar á góma þörfin á fjölbreyttari afþreyingu og félagslífi fyrir ungt fólk. Í því samhengi er gaman að segja frá því að félagsmiðstöðin Þrykkjan opnaði þann 8. desember í endurnýjuðu húsnæði í Vöruhúsinu. Þar skapast einnig vettvangur fyrir eldri ungmenni þar sem bæði FAS og ungmennaráð hafa fengið úthlutað vikulegum kvöldum undir merkjum Ungmennahús. Þess má geta að Ungmennahús er hugsað fyrir öll ungmenni á aldrinum 16-25 ára, ekki bara nemendur í FAS. Það verður spennandi að fylgjast með því hvort ekki skapist þar góður vettvangur fyrir ungt fólk til að hittast og móta skemmtilegt og  fjölbreytt félagslíf.

Ég hef fulla trú á því að með áframhaldandi góðu starfi ungmennaráðs, Ungmennaþings og nú ungmennahúss geti framtíðin orðið enn bjartari fyrir ungmenni á Hornafirði.

Hjálmar Jens Sigurðsson

 

Skildu eftir svar