Erindi flutt á bæjarstjórnarfundi 14. desember 2017.

Hornafjörður er annað tveggja sveitarfélaga á Íslandi sem eru í samstarfi um svokallað Loftslagsverkefni Landverndar. Hitt sveitarfélagið er Fljótsdalshérað. Loftslagsverkefnið horfir á ýmis konar orkunotkun í húsakyndingu og brennslu jarðefna. Verkefnið gengur út á að skrá allan akstur ökutækja sveitarfélagsins, vinnuvéla og annarrar vinnutengdrar keyrslu, svo sem bílaleigubíla og leigubíla. Orkunotkunin er skráð í svokallað kolefnisbókhald.

Verkefnið gengur líka út á að ná settum markmiðum í átt til kolefnisjöfnuðar. Sem dæmi um breytta tíma og áherslurnar í þessum málaflokki þá stefnir ný ríkisstjórn á kolefnishlutlaust Íslandi í síðasta lagi árið 2040 og 40% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir 2030. Það er því gleðilegt að loftslagsverkefnið okkar er fyrirmyndarverkefni sem önnur sveitarfélög horfa til. Vert að huga að því að aðgerðaáætlun verkefnisins nær yfir fimm ár, 2016-2020 og stendur til að endurskoða hana á næsta ári.

Markmið verkefnisins er að lækka útblástur um 3% árlega sem er samdráttur uppá um það bil 1000 lítra af dísel/bensíni fyrir bíla sveitarfélagsins, 1700 km í akstur í bílaleigubílum. Þetta eru að mínu mati hógvær markmið enda kemur það í ljós að þessum markmiðum hefur þegar verið náð og rúmlega það, þó svo að við séum bara búin með tvö ár af fimm, með tilkomu sparneytnari ökutækja. Sem dæmi þá keyrir dagþjónustan fyrir fatlaða núna á rafmagnsbíl.

Ein af stóru aðgerðum verkefnisins var að skilja lífrænt efni frá sorpinu og það er komið í framkvæmd. Það var í áætlun loftslagsstefnunnar sem aðgerðarpunktur fyrir árið 2018, en er nú þegar komið í gagnið. Við þurfum að sjálfsögðu að fylgja því vel eftir.

Sæmundur Helgason

 

Skildu eftir svar