Þann 29. ágúst héldu 35 starfsmenn og sveitarstjórnarmenn í 4 daga námsferð til Svíþjóðar og kynntu sér hvernig Svíar hafa unnið að ýmsum verkefnum sem lúta að íbúalýðræði. Ferðin var skipulögð af Sambandi íslenskra sveitafélaga. Anna G. Björnsdóttir skipulagði ferðina og leysti það verkefni af stakri prýði og færum við henni bestu þakkir fyrir. Þeir sem fóru
í ferðina frá Sveitarfélaginu Hornafirði voru: Björn Ingi Jónsson, Kristján Guðnason, Jón Kristján Rögnvaldsson og Sæmundur Helgason.

Í ferðinni voru þrjú mismunandi sveitarfélög heimsótt. Í Västerås búa rúmlega 140 þúsund íbúar. Við fengum kynningu á stefnu sveitarfélagsins um íbúalýðræði. Västerås notar ýmiss verkfæri, m.a. SMS spurningakannanir sem virkar þannig að yfir 1000 ungmenni geta haft bein áhrif á framgang mála. Bæjarstarfsmenn borgarinnar fara markvisst út til almennings með myndrænar kynningar á ýmsum tillögum og verkefnum. Sem dæmi leigir Västeråsbær sölubása í verslunarmiðstöðum eða á sölutorgum í þeim tilgangi að eiga samtal við borgarbúa. Þannig fer stjórnsýslan út til íbúanna og á samtal við þá þar sem þeir eru. Athygli vakti að 25% íbúa eru af erlendu bergi brotnir og virðast þeir hafa takmarkaðan áhuga á þátttöku í íbúalýðræði.

Samband sænskra sveitarfélaga kynnti aðferðir og hugmyndafræði til þess að virkja og viðhalda íbúalýðræði. Mikil áhersla er lögð á að veita íbúum upplýsingar til þess að hægt sé að eiga samtal og samráð um fyrirhugaðar breytingar. Samtal um breytingar og ákvarðanir þarf að vera opið, ákvarðanaferlið gegnsætt og allir fái reglulega endurgjöf. Hugtakið „félagsleg sjálfbærni“ var rætt í ýmsum myndum. Það skiptir máli að ef efla á íbúalýðræði þá þarf að hugsa fyrir því í sem flestum ákvarðanatökum. Þannig hefur það áhrif á fjárhagsáætlanir og allt skipulag.

Sveitarfélagið Skinnskatteberg er eitt það minnsta í Svíþjóð, með aðeins 4450 íbúa. Mörg vandamál Skinnskatteberginga voru okkur kunn, sbr. dýrt ljósleiðaraverkefni, sameining grunnskóla, fækkun ungs fólks svo fátt eitt sé nefnt. Þá heimsóttum við einnig sveitarfélagið Upplands Bro. Þar hittum við íslenskan starfsmann á skipulagssviði, Katrínu Karlsdóttur. Hún sagði okkur m.a. frá áhugaverðu samráði sem haft var við börn og foreldra um skipulagningu leikvalla.

Mikilvægur þáttur í ferðalagi sem þessu er samvera og samtal þeirra 35 starfsmanna og sveitarstjórnarmanna um það sem við lærðum. Að mörgu leyti þá eru íslensk sveitarfélög með mörg járn í eldinum sem snúa að íbúalýðræði. Við Hornfirðingar gátum t.d. frætt samferðamenn okkar og Svía um nýafstaðna skuggakosningu um forseta Íslands hjá ungmennum á Hornafirði sem og þátttöku ungmennaráðs í nefndum sveitarfélagsins. Vakti það verðskuldaða athygli.

 Björn Ingi Jónsson, Kristján Guðnason, Jón Kristján Rögnvaldsson og Sæmundur Helgason.

 

 

Skildu eftir svar