SæmundurÁrsþing SASS 2015 var haldið í Vík í Mýrdal í lok október. Þar hittust fulltrúar allra 15 sveitarfélaganna á Suðurlandi. Þingið var starfsamt og skemmtilegt og viðgjörningur góður hjá Mýrdælingum, eins og þeirra er von. Eitt helsta verkefni hvers ársþings er að fara yfir samþykktir SASS og senda frá sér ályktanir og helstu áherslur. Ef dregnar eru út þær ályktanir sem snúa að Hornfirðingum má nefna að Ársþing SASS 2015 bendir ríkinu á að;

– tryggja fé til rannsókna á Grynnslunum
– útrýma þarf tvíbýlum á HSu (HSSA)
– brýnt er að styrkja sjúkraflug þannig að viðbragðstími sé innan ásættanlegra viðmiðunarmarka. Ársþingið hvetur ríkisvaldið til að tryggja fjármuni til reksturs sjúkraflutninga á svæðinu
– fækka einbreiðum  brúm og efla umferðaröryggi
– tryggja fjármagn til menningartengdrar starfsemi á Suðurlandi til framtíðar, svo sem Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar
– að ríkisvaldið sjái til þess að sveitarfélög fái virðisaukaskatt af fráveituframkvæmdum endurgreiddan

Auk þess má nefna ályktanir um almenningssamgöngur, ljósleiðaravæðingu sem er forsenda byggðarþróunnar og atvinnulífs í dreifðari byggðum, að sækja þarf fram í skólamálum og efla skólastofnanir á landsbyggðinni, ekki öfugt eins og nú stefnir í að verði með aldurstakmörkun í framhaldsskólum og tilfærslu háskóla inn til höfuðborgarinnar.

SASS þingið 2015 þrýstir á að efla fæðingarþjónustu í heimabyggð eða að veita fjárstyrk til hlutaðaeigandi og koma þannig til móts við kostnað sem hlýst af því að hafa hana ekki. Efla þarf löggæslu og auka tekjuhlutdeild sveitarfélaga í skattstofnum sem renna til ríkis. Nánar má lesa um ályktanir SASS þingsins 2015 á vefnum www.sass.is

Sæmundur Helgason, fulltrúi Sveitarfélagsins Hornafjarðar í stjórn SASS

Skildu eftir svar