Að gefnu tilefni þá langar mig að fjalla um sameiningarmál leikskólanna og draga saman nokkur atriði.

Ég vil setja ákveðinn upphafspunkt á þá staðreynd að 31. maí árið 2014 var kosið til sveitarstjórnar í Sveitarfélaginu Hornafirði. Niðurstöður kosninganna voru á þann hátt að B listi fékk 37.8%, D listi 37.2% og E listi fékk 25% atkvæða. Á stefnuskrá tveggja framboða, E lista og D lista, kom fram skýr valkostur um það að skoða ætti alla kosti þess að sameina rekstur leikskólanna. Það má segja að öðru fremur þá hafi þetta mál orðið til þess að E og D framboðin náðu saman um málefnasamning. Á bak við þessa lista liggja samanlagt 62.2% atkvæða.

Í málefnasamningi E og D lista segir: “Skoðanakönnun verði haldin sem fyrst um umgjörð leikskólanna. Í framhaldinu verði umgjörð leikskólanna aðlöguð að niðurstöðum þeirrar könnunar. Sveigjanleiki á opnunartímum aukinn.”

Nú er liðið á annað ár frá því að málefnasamningurinn góði var birtur. Síðan hefur margt gerst. Á nánast öllum fundum fræðslu- og tómstundanefndar, hjá fræðslustjóra og hjá óháðum aðila, Félagsvísindastofnun Háskólans var  s.l. vetur lagður undir við vinnslu þessarar skoðanakönnunar. Allar fundargerðir fræðslu- og tómstundanefndar fengu, eðlilega, umfjöllun í bæjarráði og bæjarstjórn. Markmiðið var að allir hagsmunaaðilar gætu komið að borðinu, meitlað spurningarnar sem lagðar voru fyrir foreldra og starfsmenn. Könnunin fór í loftið á útmánuðum og niðurstöðurnar birtust í sumarbyrjun.

Það eina sem meirihlutinn lagði fram í aðdraganda könnunarinnar var að sama hver niðurstaðan yrði þá myndi hann fara eftir henni. M.ö.o. við í meirihluta bæjarstjórnar gáfum það skýrt upp að niðurstaðan myndi verða bindandi. Við bentum á málefnasamninginn hvað varðar okkar sýn.

Og niðurstöðurnar voru afgerandi. Ríkur meirihluti var fyrir því að sameina skyldi rekstur leikskólanna undir einu þaki. Þetta er sá kostur sem 70% foreldra velja og meirihluti starfsfólks líka.

Þegar niðurstöður könnunarinnar lágu fyrir fékk hún að sjálfsögðu kynningu. Niðurstöðurnar birtust strax á heimasíðu sveitarfélagsins. Boðað var til opins fundar í Nýheimum og forstöðukona Félagsvísindastofnunnar HÍ, Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, kynnti niðurstöðurnar. Á fundinum komu fram ýmsar bollaleggingar og pælingar hvort nýtt hús eða viðbygging við annan hvorn leikskólann væri það sem koma skyldi? Þar voru margir möguleikar ræddir um næstu skref. En þar var ekkert ákveðið. Þar kom skýrt fram að málið myndi eðlilega fara til umræðu hjá öllum hagsmunaraðilum. Hjá starfsmönnum leikskólanna, hjá fræðslu- og tómstundanefnd, hjá bæjarráði og bæjarstjórn. Könnunin var kynnt starfsmönnum á sérstökum fundum og þar komu eðlilega fram mörg sjónarmið. Strax var farið í að setja niður alla þá punkta sem fyrir lágu og halda áfram með málið. Fræðslustjóri setti upp, að beiðni meirihlutans, drög að aðgerðaráætlun.

Frá því eftir sumarleyfi þá hefur margt gerst. Fræðslu- og tómstundanefnd hefur haft á sínu borði drög að aðgerðaráætlun. Markmiðið með aðgerðaráætluninni var og er að draga upp vörður á þeirri vegferð sem meirihluti bæjarstjórnar sér fyrir framgöngu þess að sameina starfsemi leikskólanna undir einu þaki. Þar kemur skýrt fram að við vonumst eftir því að sameinaður leikskóli muni taka til starfa haustið 2017. Huga þarf að margskonar þáttum á þessari vegferð. Aðgerðaráætlunin verður án efa gott veganesi.

Ég ætla ekki að eyða mörgum orðum í að ræða um allt það sem hefur verið sagt og gert á þessari vegferð. Að mínu mati hefur farið fram að mestu eðlileg skoðanaskipti og viðbrögð við svo stóru máli. Talað hefur verið um að þetta mál sé uppblásið af háværum minnihluta í samfélaginu. Ég leyfi mér að benda á að allar staðreyndir, kosningar og könnunin, tala sínu máli. Ég held að þar birtist með skýrum hætti bæði hávær og lágvær meirihluti fyrir því að sameina beri leikskóla undir einu þaki.

Á bæjarstjórnarfundi 1. október s.l. var settur saman stýrihópur sem mun leiða málið og verða fræðslunefnd, fræðslustjóra og bæjarstjórn innan handar. Við stefnum að því að haustið 2017 taki til starfa einn sameinaður leikskóli undir einu þaki.

Sæmundur Helgason

Skildu eftir svar