Í september hélt umhverfisnefnd vinnufund, þar sem aðal- og varamenn voru kallaðir til. Þar fór af stað umræða um að bæta við og leggja fleiri göngustíga í sveitarfélaginu. Hugmyndin er að skapa heilstæða sýn á gerð göngustíga, semsagt hvar þeir eiga að vera og hvaða hlutverki þeir geta þjónað. Með góðum göngu- og hjólastígum gefst íbúum og gestum tækifæri til að ferðast um gangandi, hlaupandi eða hjólandi á öruggan, aðlaðandi og vistvænan hátt. Nefndin ræddi vítt og breitt um málið. T.d. hvernig nýir stígar myndu tengjast þeim göngu- og hjólaleiðum sem fyrir eru og í hvaða áföngum skynsamlegt yrði að halda áfram.

Umhverfisnefndin mun fjalla um og mælast til að göngustígar falli inn inn í skipulag eftir því sem við á. Þannig er í framhaldinu hægt að fara í vinnu um að fá fjármagn í verkefnin, og eftir atvikum fá leyfi eða semja við landeigendur um að leggja stíg í þeirra landi, þ.e.a.s. ef göngustígurinn mun liggja annars staðar en í landi sveitarfélagsins. Það liggur fyrir að góður göngustígur kostar u.þ.b. 20.000 kr per meter. Það eru umtalsverðir peningar og fyrirséð að verkefnið mun taka einhver ár, jafnvel nokkur kjörtímabil.

Hugmyndin er að þegar umhverfisnefnd hefur teiknað upp sitt plan að aðrar nefndir fjalli um málið þannig að hægt verði að tvinna saman að göngustígar geti bæði hentað fjölbreyttri afþreyingu, menningu og atvinnulífi. Þannig vonum við að göngustígar liggi við athyglisverða útsýnisstaði og náttúrufyrirbæri, framhjá listigörðum, kaffihúsi eða eitthvað það annað sem samfélaginu gæti dottið í hug. Augljóslega munu göngustígar auka gæði þeirra sem kjósa að stunda holla, örugga og góða hreyfingu, ungir og gamlir, hlaupafólk, hjólafólk, barnafólk og líka þeir sem þeysast um á svokölluðum ellinöðrum.

Ég hvet áhugasama til að koma ábendingum um lagningu göngustíga til nefndarinnar. Það er t.d. hægt með því að nota íbúagáttina á heimasíðu sveitarfélagsins eða setja sig í samband við nefndarfólk og starfsmenn sveitarfélagsins.

Sæmundur Helgason

 

Skildu eftir svar