Nú á næstu dögum fá foreldrar/forráðamenn yngstu barna sveitarfélagsins og starfsmenn leikskólanna á Hornafirði senda könnun þar sem viðhorf til umgjarðar leikskólamála er kannað. Ástæðan fyrir því að þessi könnun er send út er sú, að skiptar skoðanir hafa verið á þessum málum í nokkurn tíma.

Það sem hefur verið nefnt í þessari umræðu er m.a. að hér eru litlir árgangar sem fylgjast ekki að og ítrekað hefur komið upp ójöfn skipting árganga og kynja milli leikskóla. Börn hafa lent í því að vera 1-2 af sama kyni í öðrum leikskólanum á meðan allir hinir jafnaldrarnir af sama kyni hafa dvalið á hinum leikskólanum. Á heimasíðu leikskólanna má sjá að árgangur 2009 skiptist þannig að 2 stúlkur eru á Krakkakoti en 5 á Lönguhólum á meðan 8 drengir eru á Lönguhólum og 9 á Krakkakoti. Í árgangi 2010 eru 3 stúlkur á Krakkakoti og 6 á Lönguhólum en 2 drengir á Lönguhólum og 7 á Krakkakoti.

Ein af helstu rökunum fyrir breytingunum sem voru gerðar árið 2006 þegar horfið var frá því að árgangar fylgdust að á milli skóla voru,  að það væru tvær stefnur og skólar sem foreldrar gætu valið á milli. Þetta val hefur ekki alltaf staðist þar sem annar leikskólinn hefur oft verið fullur seinni hluta árs og því meira val á fyrri hlutanum, einnig hafa foreldrar verið að velja skóla eftir kynjahlutfallinu sem fyrir er. Frá Grunnskólanum hefur komið fram að undirbúningur nemenda er mismunandi milli leikskóla,  við upphaf skólagöngu og ákveðin hópaskipting hefur þegar fest sig í sessi.

Á síðasta kjörtímabili var gerð könnun á meðal foreldra leikskólabarna og starfsmanna leikskólanna en niðurstöður hennar þóttu ekki afgerandi. Einnig var gagnrýnt að ekki var óháður aðili sem sá um gerð og túlkun niðurstaðna. Sú könnun leiddi til stækkunar á Krakkakoti til að létta á biðlistum.

Í nóvember 2013 skilaði hópur foreldra greinargerð og undirskriftarlista þar sem gerð var krafa um sameiningu árganga. Framkvæmd undirskrifarsöfnunarinnar var gagnrýnd þar sem hluti foreldra vissu ekki af henni. Í kjölfarið var ákveðið að fara í skoðanakönnun af þáverandi meirihluta en hætt við það og gerðar breytingar á reglum um leikskólana sem þóttu koma til móts við óskir foreldra. Breytingarnar fólu m.a. í sér að barn dettur ekki út af biðlista í skóla sem er fyrsta val, þótt tekið sé pláss á hinum.

Að lokum er kveðið á um í málefnasamningi 3. framboðsins og Sjálfstæðisflokksins að gerð verði skoðanakönnun á umgjörð leikskólamála og hún aðlöguð að niðurstöðum könnunarinnar.

Nú er vinnslu við þessa skoðanakönnun að ljúka og mun kostnaðarmat liggja fyrir á mismunandi rekstrarformum innan skamms. Markmið með  könnuninni er að hafa fáar en hnitmiðaðar spurningar (spurt er um umgjörð, opnunartíma og sumarlokanir) ásamt því að fá óháðan aðila til að semja og sjá um framkvæmd og túlkun niðurstaðna. Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands var fengin í það verk og  Endurskoðendaskrifstofa KPMG til þess að sjá um rekstrarúttektina. Verða helstu niðurstöður rekstrarúttektarinnar kynntar í næst Eystrahorni.

Það er von okkar í meirihlutanum að hlutaðeigandi aðilar og íbúar í sveitarfélaginu taki þessari könnun og úttek vel. Þegar niðurstöður liggja fyrir verður ákvörðun tekin sem grundvölluð verður á niðurstöðum fyrrnefndra þátta. Aðlamarkmiðið er að hafa hag barnanna, starfólks og foreldra að leiðarljósi og að allir hagsmunaraðilar vinni með opnum huga að farsælli lausn og skapi sátt um leikskólamálin.

Nú er hafin vinna við „Leið til árangurs“ sem leið til að bæta námsárangur barna á Hornafirði. Sú leið byggist á marvissri vinnu í lestri og stærðfræði frá 2-16 ára aldurs. Hægt er að sjá fyrir sér að leikskóli með sameinaða áraganga myndi renna styrkari stoðum undir þá vinnu þar sem allir vinna að sama markmiði.  Komið hefur fram frá starfsmönnum Fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar að 100 barna leikskólaeining sé kjörin stærð í þeirri vinnu en samtals eru leikskólabörn um 100 talsins á Hornafirði.

Samband íslenskra Sveitarfélaga hefur sent áskorun til sveitarfélaga landsins sem miðar að því að efla menntun starfsmanna í leikskólum landsins. Sveitarfélagið Hornafjörður hefur kynnt starfsmönnum ákveðnar tillögur og  stefnir að því að hefja átakið strax í haust.

Virðingafyllst
Hjálmar J. Sigurðsson formaður Fræðslu- og tómstundanefndar

Skildu eftir svar