Tilefni þessara orða er umræða sem fór fram á bæjarstjórnarfundi 9. febrúar. Þar var rætt um ráðstefuna „Hvað á ég að gera hér?“ sem haldin var af frumkvæði Þekkingasetursins Nýheima 26. janúar. Ráðstefnan fjallaði um samfélagsþátttöku, jafnréttismál, lýðræðisvitund og valdeflingu ungmenna. Fyrirlesarar voru ungmenni og sérfræðingar um stöðu ungs fólks sem miðluðu af reynslu sinni og sögðu frá niðurstöðum rannsókna sinna. Tilgangurinn var að ræða stöðu og aðstæður ungmenna í dreifðum byggðum, hvar væri helst úrbóta þörf og hvaða leiðir séu færar til að bæta hag ungmenna á landsbyggðinni.
Óhætt er að segja að ráðstefnugestir urðu margs vísari. Erindin voru fróðleg og umræður áhugaverðar. Ég vil nýta þetta tækifæri og þakka ráðstefnuhöldurum, fyrirlesurum og þeim sem komu og tóku þátt í ráðstefnunni. Umræðan verður svo að halda áfram. Mín skoðun er sú að hér höfum við ótal margra góða sprota sem byggjandi er á í málefnum ungmenna. Þar gegnir Ungmennaráð Hornafjarðar lykilhlutverki að mínu mati. Ungmennaráðið hefur verið nokkuð virkt, flestar fastanefndir sveitarfélagsins fá nú fulltrúa ungmennaráðs inn á fundi sína. Þar hafa ungmennin, allt frá 14 ára til rúmlega tvítugs, málfrelsi og tillögurétt. Ungmennaráðið ætlar nú að standa fyrir ungmennahúsi eða samveru ungmenna, í Þrykkjunni, fast einu sinni í viku.
Til stendur að stofna Ungmennráð Suðurlands og er stofnfundur þess ráðs fyrirhugaður með vorinu. Þar munu ungmenni frá öllum 15 sveitarfélögunum á Suðurlandi eiga fulltrúa. Undirbúningshópur, skipaður ungmennum, tómstundarfulltrúum og tengilið úr sveitarstjórn hefur hist til að marka ráðinu ákveðið erindisbréf. Þar segir m.a. að hlutverk Ungmennaráðs Suðurlands verður:
- Að vekja athygli á málefnum ungs fólks á Suðurlandi og gæta hagsmuna þeirra.
- Að sýna frumkvæði og virka þátttöku sem íbúar á Suðurlandi og öðlast þannig sterka rödd í samfélaginu að ákvörðunum sem snerta líf þeirra.
- Að auka jafningjafræðslu og styðja við ungmennaráð á Suðurlandi.
- Að koma tillögum og ábendingum til sveitarstjórna um öll þau málefni sem ráðið telur skipta ungmenni á Suðurlandi máli.
- Að stuðla að bættum skilyrðum fyrir ungmenni á Suðurlandi með tillit til náms, velferðar, vinnu og framtíðarbúsetu á Suðurlandi.
Þessi vinna lofar góðu og verður spennandi að sjá hvernig sunnlensk ungmenni munu þróa þennan vettvang áfram.
Hugleiðing mín að lokum er að beina því til allra ungmenna á Hornafirði, að opna augu sín fyrir því að hér eru margir möguleikar sem bjóðast til að taka þátt í samfélaginu. Hvort sem það er hjá leikfélaginu, golfklúbbnum, hestamannafélaginu, skemmtifélaginu, björgunarsveitinni, ungmennaráði, í kórunum eða allskonar íþróttum. Verið virk, nýtið ykkur tækifærin og takið þátt í að breyta og bæta það öfluga starf sem fyrir er. Skapið sjálf nýja hluti. Það er margt hægt að gera hér því þar sem er vilji þar er leið. Orðum mínum beini ég líka til okkar sem eldri erum. Við skulum hlusta og taka röddum og skoðunum unga fólksins opnum örmum þegar kallið kemur og aðstoða eftir bestu getu.
Sæmundur Helgason, kennari og fulltrúi 3.framboðsins í bæjarstjórn