Ég tel það vera algjör forréttindi að hafa fengið að alast að hluta til upp á Hornafirði og ég hlakka til að ala upp börnin okkar Guðrúnar í þessu fallega, skemmtilega og gefandi samfélagi. Hins vegar eru, eins og í öllum öðrum sveitarfélögum, nokkrir hlutir sem ég tel vera ábótavant. Ég hef lengi starfað með Ungmennaráði Hornafjarðar og gegnt þar bæði formennsku og varaformennsku. Það er því hægt að segja að málefni ungs fólks séu mér sérstaklega hjartfólgin. En hvað eru málefni ungs fólks? Til þess að svara þessari spurningu er mikilvægt að velta fyrir sér þörfum ungs fólks á Hornafirði. Það hefur sýnt sig síðustu ár að ungir Hornfirðingar flytja margir hverjir í burtu frá Hornafirði eftir grunnskóla eða framahaldsskólagöngu sína. Hvers vegna? Jú, sumir flytja til þess að mennta sig, ferðast eða vinna. En svo eru þeir sem flytja til þess að vinna í sálrænum vandamálum eða koma út með kynhneigð sína, sem hefur sýnt sig að eru töluvert margir. Sálfræði og geðheilsuþjónusta er eitt það mikilvægasta sem sveitarfélag þarf að geta boðið íbúum sínum upp á. Samkvæmt rannsókn sem framkvæmd var árið 2017 meðal allra unglinga í grunnnskólum landsins kemur fram aukning á kvíða og depurð og að ungmennum líði almennt verr núna en áður. Þessar niðurstöður verðum við að hlusta á. Við verðum að hlúa að unga fólkinu okkar og veita þeim þau tæki og tól sem þau þurfa til þess að þeim líði vel og fá þá hjálp sem þau þurfa.
Unga fólkið okkar í Hornafirði er framtíð sveitarfélagsins, en það er einnig mikilvægt að hugsa um þau í nútíðinni. Unga fólkið sem við ölum upp í dag verður hið frábæra, duglega og metnaðarfulla fólk sem í framtíðinni mun taka yfir og vera t.d. bæjarstjórar, sjúkraliðar, leikskólakennarar, sorpvinnslumenn, hjúkrunarfræðingar og svo mætti lengi telja. Því skiptir máli að hlúa að þeim áður en við ætlumst til þess að þau taki að sér ofangreind hlutverk. Við þurfum að rækta það með unga fólkinu okkar að það sé ákjósanlegt að búa á Hornafirði, þar sem þau geta verið fullviss um að þau fái þá hjálp og þau tækifæri sem þau kann að vanta. Fleiri íbúðarhús, leiguíbúðir, viðunandi heilsuræktaraðstaða og greið leið að sálfræði aðstoð eru meðal þeirra hluta sem við þörfnumst til þess að halda í unga fólkið okkar og til að tryggja að þau sjái það sem góðan kost að flytja aftur til Hornafjarðar, eftir nám og önnur ævintýri. Við þurfum að bjóða þessu unga fólki vettvang til þess að koma skoðunum sínum á framfæri. Ég vonast eftir því að með framboði mínu geti ég verið talsmanneskja fyrir hugmyndir og skoðanir ungs fólks í Sveitarfélaginu. Ég vil hvetja ungt fólk til þess að leyfa rödd sinni að heyrast, vegna þess að öll málefni eru málefni ungs fólks.
Sigríður Þórunn Þorvarðardóttir
4. sæti á lista 3.framboðsins