Fræðslumál
Eitt af markmiðum síðasta kjörtímabils var að gera könnun á ytri umgjörð leikskólamála á Höfn. Reynt var að tryggja að fá sem flesta að borðinu, starfsmenn, stjórnendur, foreldra og stjórnmálamenn. Niðurstaðan var sú að almennur vilji var fyrir því að sameina leikskólana undir eitt þak. Byrjað var á að sameina leikskólana undir nafninu Sjónarhóll og nú í haust mun skólinn flytja í glæsilegt nýtt og endurbætt húsnæði. Þar skapast frábær aðstaða og vettvangur til að vinna áfram með hið góða innra starf sem hefur verið unnið í gegnum tíðina.
Leið til árangurs þar sem markviss áhersla er á lestur og stærðfræði frá leikskóla og í gegnum grunnskólann var innleidd á tímabilinu. Þessi stefna rímar vel við nýja menntastefnu sveitarfélagsins sem nær yfir nám alla ævi og var unnin í samvinnu við íbúa og hagsmunaðila samfélagins frá skólum til atvinnulífisins. Hún endurspeglar því sýn íbúa á öllum aldri til menntamála og framtíðarþróunar í sveitarfélaginu.
Æskulýðs- og tómstundamál
Tómstundstyrkurinn var hækkaður verulega á tímabilinu og aldur þeirra sem geta nýtt hann hækkaður í 18 ár með það að markmiði að fleiri geti stundað fjölbreyttara tómstundastarf.
Starfshópur var stofnaður um íþróttamál í því skyni að kortleggja þarfir mismunandi íþróttagreina út frá því sjónarmiði að efla og þróa áfram tækifæri til íþróttaiðkunar í sveitarfélaginu. Þegar aðstaðan var skoðuð kom í ljós að mest aðkallandi var að fá vallarhús, betri æfingaaðstöðu úti við fyrir knattspyrnu, nýtt og stærra íþróttahús og varanlegt húsnæði fyrir líkamsrækt. Ljóst er að hanna þarf íþróttasvæðið á heildrænan hátt og gera framkvæmdaráætlun til lengri tíma.
Ungmennaráð festi sig í sessi á kjörtímabilinu og það að fá fastamenn inn í nefndir var góður áfangi. Ungmennaþing er komið til að vera og er góð leið til að ná til fleiri ungmenna og stuðla að því að raddir þeirra heyrist í samfélaginu. Ungmennahús opnaði svo í endurbættu húsnæði Þrykkjunnar. Það er hugsað fyrir öll ungmenni á aldrinum 16-25 ára. Vonandi skapast þar góður vettvangur fyrir ungt fólk til að hittast og móta skemmtilegt og fjölbreytt félagslíf.
Heilsueflandi samfélag
Það hefur marga kosti að búa á Hornafirði og einn þeirra er að við erum Heilseflandi samfélag. Í heilsueflingastarfi er markvisst unnið með og stutt við þætti sem hafa áhrif á heilbrigði í víðu samhengi. Í heilsueflandi samfélagi er heilsa, líðan og heilbrigðir lífshættir íbúa í fyrirrúmi í stefnumótun og aðgerðum á öllum sviðum og markmiðið að skapa sem bestu aðstæður fyrir það. Hvernig snýr þetta að sveitastjórnunarmálum? Það eru margar leiðir til að stuðla að heilsueflingu en hér eru nokkur dæmi um málaflokka sem geta haft áhrif á heilsu íbúa. Í skólastarfi getur þetta t.d. snúið að því að skapa góðan aðbúnað fyrir starfsfólk og nemendur. Í æskulýðs- og íþróttastarfi hefur framboð, aðstaða og aðgengi áhrif. Einnig má nefna skipulag, hönnun hverfa, byggingar og samgöngur ásamt aðgengi að byggingum og þjónustu. Félagsþjónusta þarf að vera góð og aðbúnaður eldri borgara og viðkvæmra hópa viðunandi. Heilbrigðisþjónustan þarf að vera heildstæð og samstaða um aukið aðgengi og gæði, eins og t.d. að geðheilbrigðisþjónustu. Í umhverfismálum þarf að huga að loftgæðum og úrgangsmálum. Heilsueflandi samfélag er eftirsóknarverðara, hagkvæmara, skilvirkara, öruggara, sjálfbærra og tryggir aukinn jöfnuð.
Sveitarfélagið Hornafjörður hefur margt upp á að bjóða sem rímar við Heilsueflandi samfélag en lengi má gott bæta. Höldum áfram á sömu braut og gerum gott samfélag enn eftirsóknaverðara.
Hjálmar Jens Sigurðsson
skipar 3. sætið á lista 3.framboðsins.