Erindi flutt á bæjarstjórnarfundi 11. maí 2017.
Umhverfisnefnd og starfsmenn sveitarfélagsins hafa undanfarin misseri unnið að því að yfirfara málaflokk sorphirðu og sorpeyðingar. Markmiðið með þessari skoðun er auka endurnýtingu úrgangs, minnka urðun og ná fram hagræðingu og betri nýtingu urðunarstaðar í landi Fjarðar í Lóni. Þetta er m.a. gert með því að taka upp sérstaka flokkun á lífrænum úrgangi. Verkfræðistofan Mannvit var fengið að verkinu sem ráðgjafi og niðurstaða þessarar vinnu var að bjóða sorphirðu og sorpflokkunina út, með samningstíma til fimm ára. Þrjú tilboð bárust ásamt þremur frávikstilboðum. Ég ætla ekki að fara ofan í saumana á því hér hvernig þau tilboð voru, hver bauð lægst eða hæst og í hverju frávikin voru, en nánar má lesa um það í fundargerðum umhverfisnefndar og bæjarráðs í apríl og maí.
Skilyrði var sett fram í útboðinu að nú verður tekin upp flokkun á lífrænum úrgangi og að tilboðsgjafar taka að sér alla verkþætti þess sem snýr að málaflokknum; sorphirðu, rekstur sorpmóttöku (Gárunnar), moltugerð og rekstur sorpeyðingarstaðar í Lóni.
Kostnaður við sorphirðu og sorpeyðingu hjá sveitarfélaginu er samanlagt skv. ársreikningi 2016 um 85 milljónir á ári. Innheimt gjöld vegna málaflokksins eru 55 milljónir á ári. Við notum 30 milljónir af útsvarstekjum og farsteignaskattstekjum til að greiða niður sorphirðu og sorpeyðingu. Í lögum um málaflokkinn þá ber sveitarfélaginu að ná jafnvægi á þessu tvennu, þ.e. rukka þjónustuþega um þau gjöld sem falla til.
Útboðið var í tveimur hlutum. Leið A gerir ráð fyrir að við hvert heimili sé ein endurvinnslutunna, ein almenn tunna og hólf, sett ofan í aðra tunnuna, fyrir lífrænan úrgang sem verði unnin og úr honum gerð molta sem verði aðgengileg fyrir íbúa. Leið A er í raun það verklag sem við höfum haft síðan 2013 nema að nú bætist við þessi 30-40 lítra fata fyrir lífrænan úrgang.
Leið B gerir ráð fyrir að við hvert heimili sé einungis ein almenn tunna með hólfi eða fötu fyrir lífrænan úrgang. Í leið B er gert ráð fyrir að íbúar fari með endurvinnanlega efnið á grenndarstöðvar, ekki ólíkt því sem var við lýði fyrir 2013. Grenndarstöðvar yrðu settar upp í sveitunum auk þess sem bætt yrði við flokkunnarbarinn sem nú er við Gáruna a.m.k. einni grenndarstöð í þéttbýlinu á Höfn. Í dreifbýli er gert ráð fyrir að íbúar geti fengið jarðgerðartunnu ef þeir nýta ekki lífræna efnið, það á við um báðar leiðir, A og B. M.ö.o. það á ekki að safna lífrænum úrgangi í dreifbýli. Fyrir þá sem standa í framkvæmdum, ætla sér að taka til í bílskúrnum eða losa sig við garðaúrgang þá verða gefin út sérstök klippikort sem leyfa losun á 4 m³ árlega í gámaporti.
Umræðan í umhverfisnefnd og í bæjarráði hefur gengið út á hvort fara eigi leið A eða leið B. Leið A felur í í sér minni breytingu frá núverandi sorphirðukerfi sem farið var af stað með árið 2013 og er við fyrstu sýn mjög skynsöm. Leið B er hins vegar 28 milljónum ódýrari og ekki síður skynsöm. Leið B gerir ráð fyrir grenndarstöðvum í hverri sveit sem taka á móti endurvinnanlegu efni. Grenndarstöðvarnar yrðu þá til að bæta þjónustu, sérstaklega við dreifbýlið og myndu líka gagnast síauknum straum ferðamanna. Það er auðvita áskorun sem hvort sem er þarf að taka á. Og að lokum að þá myndi leið B ekki útiloka leið A. Þeir sem vilja hafa tvær tunnur, eina fyrir almennt sorp og eina fyrir endurvinnalegt, geta gert það eftir sem áður. Þeir þurfa einungis að panta sér aukatunnu fyrir endurvinnanlegt efni og borga fyrir það aukalega 1200 kr á mánuði. Allir aðrir verða með eina tunnu fyrir almennt sorp + fötu fyrir lífrænt og skila sjálfir frá sér endurvinnsluefninu í grenndarstöðvar eða gámaport.
Á síðasta fundi bæjarráðs, nr. 812 var bókað að ganga skuli til samninga við lægst bjóðanda, sem er Íslenska Gámafélagið ehf. Ef um semst og allt fer sem horfir þá munu þessar breytingar á sorphirðu og sorpeyðingu verða í sumarlok.
Fá mál standa íbúum eins nærri og sorpmálin og ég vona að niðurstaðan af breytingunum verið í samræmi við markmiðin. Sem er að auka endurnýtingu úrgangs, minnka urðun og ná fram hagræðingu og betri nýtingu urðunarstaðar, m.a. með því að flokka sérstaklega lífrænan úrgang sem fer til moltugerðar og endurnýtingar íbúum og samfélaginu til góðs.
Sæmundur Helgason