Eftirfarandi ræðu flutti Sæmundur Helgason á bæjarstjórnarfundi 10. mars 2016:
Forseti, góðir fundarmenn!
Nú er komið að ákveðnum þáttaskilum í leikskólamálinu. Tillagan sem nú er lögð fyrir er að sameina leikskólanna með því að byggja við Lönguhóla um 400 m2 viðbyggingu. Þannig verður leikskólinn sameinaður í 900 m2 byggingu haustið 2017, ef allt gengur að óskum. Málið hefur verið rætt í næstum tvö ár í pólitíkinni og nú fer af stað hönnunar- og framkvæmdarferli.
Mig langar að fara nokkrum orðum um ferlið og vel að setja byrjunarreitinn við kosningar vorið 2014:
Í júní 2014 var sú ákvörðun sett fram í málefnasamningi meirihluta D og E lista að skoða betur vilja fólks til sameiningar og loforð gefið um að bregðast við í samræmi við niðurstöður. Þetta var gert þrátt fyrir að bæði framboð hefðu talað ljóst um að þeirra vilji lægi til þess að sameina bæri leikskólastarfsemina. Ástæðan fyrir því að skoða betur vilja fólks var og er einlægur vilji okkar til þess að skapa sátt og frið í samfélaginu um starfsemi leikskólanna.
Fræðslunefnd fjallaði um málið sem og bæjarráð og bæjarstjórn. Framan af gekk samtalið út á hverja skyldi spyrja og hvaða spurningar ættu að rata inn í könnunina. Ákveðið var að Félagsvísindastofnun HÍ myndi framkvæma skoðanakönnunina, starfsmenn og foreldrar voru þeir sem voru spurðir. KPMG vann ákveðna greiningarvinnu um mismunandi rekstarform sem í stöðunni voru. Könnunin var lögð fyrir í apríl/maí og niðurstöður komu fram í júní 2015, næstum ári eftir kosningar. Niðurstöður voru kynntar og strax var farið að skoða alla möguleika í stöðunni.
Í mínum huga og eins og ég hef svo oft farið yfir áður, þá voru niðurstöður könnunarinnar skýrar. Mikill meirihluti foreldra lýsti sig fylgjandi því að sameina starfsemina. Starfsmenn voru líka í meirihluta með stuðning við þá leið.
Í ágúst s.l. var aðgerðaráætlun sett fram og rædd af fræðslunefnd, bæjarráði og bæjarstjórn. Til að gera langa sögu stutta þá var ákveðið að sameina leikskóla undir einu þaki, líkt og svo skýrt kom fram að var vilji fólks í skoðanakönnuninni. Eins var ákveðið að setja á laggirnar starfshóp um sameininguna. Ingibjörg Gísladóttir mannauðs- og breytingaráðgjafi ráðin sem ráðgjafi fyrir breytingarferlið.
Áhættu- og hagsmunagreining var unnin sem og styrkleika- og veikleikagreining. Allir kostir í stöðunni voru skoðaðir með starfshópnum, kjörnum fulltrúum og skipulags- og framkvæmdarsvið Sveitarfélagsins gaf ráðleggingar um þá þætti sem snúa að kostnaði, skipulagi, verklagi og öðru sem talið var að skipti máli að draga fram áður en ákvörðun yrði tekin um hvar skyldi sameina og byggja.
Valkostirnir voru fjórir. Skoðað var að byggja við annað hvort Krakkakot eða Lönguhóla. Kostir þess að byggja alveg nýtt hús voru skoðaðir vel sem og að gera í raun ekki neitt heldur sameina starfsemina í núverandi húsum. Sá kostur þótti okkur ekki koma til greina enda alls ekki í anda umræðunnar.
Nú liggur fyrir að taka endanlega ákvörðun um hvað skal gert. Bæjarráð lagði til á fundi sínu s.l. mánudag að viðbygging við Lönguhóla sé vænlegasti kosturinn. Þetta skrifa allir fulltrúar í bæjarráði uppá og ég fagna þeirri samstöðu sem náðist þar um leiðina sem verður fyrir valinu. Viðbygging við Lönguhóla er framkvæmd sem mun kosta 292 milljónir með öllum þeim framkvæmdum og endurbætum sem fylgir. Ég þori alveg að viðurkenna það að mér fannst besti kosturinn að byggja alveg nýtt hús á Leirusvæðinu. En ég skil samt ákvörðun bæjarráðs og styð hana. Nýtt hús myndi kosta 452 milljónir. Því er munurinn á viðbyggingu við Lönguhóla og byggingu nýs húss 160 milljónir. Fyrir það er hægt að setja af stað byggingu á 10-15 leiguíbúðum, sem mikil þörf er fyrir. Það mál erum við búin að ræða hér fyrr á fundinum. Þessi valkostur, að byggja við Lönguhóla rýrir á engan hátt þau gæði sem við viljum sjá að búin verði á góðri aðstöðu handa börnum og starfsfólki.
Meirihluti bæjarráðs lagði einnig til að flýta sameiningu árganga. Það er gert til þess að útskriftarárgangur 2016-17 njóti líka góðs af sameiningunni og fái þetta tækifæri líka áður en þau fara í grunnskólann. Þannig er komið til móts við óskir og vilja foreldranna. Núna í framhaldinu af þessari ákvörðun mun fræðslustjóri, stjórnendur og starfsmenn finna góða laus til að koma móts við þessa ósk og vilja foreldra.
Ég fagna niðurstöðunni sem nú er komin fram. Mér finnst málið hafa verið unnið af yfirvegun og niðurstaðan er komin fram með löngu, miklu og innihaldsríku samtali við hagsmunaaðila, eins ég rakti hér að framan.
Að lokum þetta. Af hverju er þetta gert? Af hverju er verið að sameina leikskólanna? Af hverju höfum við tekið þetta mál svona föstum tökum og reynt að vinna það eins faglega og raun ber vitni? Svarið er einfalt, með þessu er komið til móts við óskir foreldra að elstu börn verði meira saman áður en þau fara í grunnskóla. Það er komið á móts við óskir þeirra foreldra sem upplifa börn sín í aðskildum vinahópum langt upp eftir öllum aldri, algerlega að ástæðulausu. Í rekstrarskýrslu KPMG kom fram að rekstur sameinaðs leikskóla verður 5% hagkvæmari. Mín trú er sú að það góða starfsfólk sem er til staðar á leikskólunum muni njóta sín betur á sameinuðum leikskóla og fái betri stuðning hvert af öðru. Ég horfi með tilhlökkun til þess að sjá sameinaðan leikskóla við Lönguhóla.