Skólapúlsinn er mælitæki sem flestir skólar landsins nýta sér til sjálfsmats og gefur Grunnskóla Hornafjarðar mælingar á mörgum mikilvægum þáttum í skólastarfi. Þannig nýtast mælingar til að rýna í starfið og gera breytingar og endurbætur á þeim þáttum sem þarf. Með mælingum Skólapúlsins er hægt að sjá hvernig hver skóli stendur varðandi ákveðna þætti, miðað við aðra skóla sem taka þátt. Þar sem Skólapúlsinn er mjög víða notaður þá ber okkur að taka mark á mælingunni, hún gefur sterkar vísbendingar.
Niðurstöðurnar sem Skólapúlsinn gefur Grunnskóla Hornafjarðar á haustdögum 2015 eru á margan hátt jákvæðar. Sem dæmi má nefna ánægju nemenda með lestrarátak s.l. ár, almenna ánægju í námi og að nemendur grunnskólans hreyfa sig meira en gengur og gerist, svo eitthvað sé nefnt.
En Skólapúlsinn gefur klárar vísbendingar um að nemendur upplifa einelti, meira en gengur og gerist sé miðað við landsmeðaltal. Of margir upplifa baktal og orðbragð sem lætur þeim líða illa. Fram kemur að þetta á ekki bara við á skólatíma heldur líka utan skólans. Að einhverjum nemendum líði illa er ótækt og mikið áhyggjuefni.
Skólinn er mikilvægur hlekkur í uppeldi og velferð barnanna okkar. Við viljum að börnunum okkar líði vel í skólanum og að hann sé griðastaður fyrir alla. Þar á öllum að líða vel í leik og starfi. Ég vil með þessum orðum mínum benda á að grunnskólinn er ekki eyland í samfélaginu okkar.
Ég held að mæling Skólapúlsins gefi klárar vísbendingar um að í samfélaginu okkar þrífst einelti. Ekki bara í skólanum, heldur líka hjá okkur sem eldri erum, á vinnustöðum, í félagsstarfi, íþróttum o.s.frv. Ég held að skólinn endurspegli samfélagið og ef mælingin næði til samfélagsins alls þá myndi það án efa fá viðlíka niðurstöðu.Að mínu mati þá er einelti með öllu óásættanlegt. Mér finnst full ástæða til að blása í alla þá herlúðra sem fyrir finnast til að uppræta einelti.
Eineltið á sér nefnilega einn mjög góðan vin. Sá vinur er þögnin. Og ég blæs nú með mínum lúðri á allar þær raddir sem vilja gera lítið úr málinu, draga niðurstöður Skólapúlsins í efa eða einangra vandann við grunnskólann einan. Ég blæs á alla þögn um málefnið. Ég kalla eftir því að samfélagið allt skoði vel hvað það getur gert til þess að uppræta einelti. Ég veit að grunnskólinn mun taka á málinu með öllum tiltækum ráðum. Ég skora á samfélagið allt að taka þátt í þeirri vinnu með skólanum og opna á umræðu um einelti. Við skulum ekki þegja.
Sæmundur Helgason