Á fyrsta fundi nýrrar umhverfisnefndar var rætt um sorphirðu og sorpflokkun. Þetta málefni er og verður eitt af stóru málunum sem umhverfisnefnd mun hafa á sinni könnu. Á síðasta kjörtímabili var tekin sú ákvörðun að vera með tveggja tunnu flokkun á heimilssorpi og stigin hafa verið mörg ágæt skref í þá átt að flokka betur sorp en áður hefur verið gert. Ekki eru allir í samfélaginu sammála því að tveggja tunnu kerfið sé réttasta leiðin. Fyrir þá sem flokkuðu betur og meira var sú leið afturför. Nefndin mun fjalla um það m.a. á þeim forsendum að við vitum að árið 2020 verða öll sveitarfélög landsins að flokka lífrænt sorp sérstaklega, hvað sem tautar og raular.
Stóra spurningin í málaflokknum er hvernig við sjáum fyrir okkur framtíðarlausn á hvert sorpið okkar fer og hvernig frá því er gengið. Ég vil leggja á það áherslu að það er mikið hagsmunarmál fyrir okkur öll að sorp sé vel flokkað. Það skilar sér margfalt ef hægt er að minnka umfang sorps og flokka það frá sem hugsanlega er hægt að endurnýta og jafnvel selja frá okkur með tilheyrandi hagnaði.
Með tilkomu Gárunnar hefur aðstaða til flokkunar stóreflst og nú er hafin böggun á heimilssorpi. Sorpinu er semsagt þjappað saman í u.þ.b. rúmmeters stóra bagga sem verður hægt að stafla upp á urðunarstað í Lóni. Það tryggir mun betri nýtingu á urðunarstaðnum og betri umgengni. Og betri nýting á urðunarstað tryggir í leiðinni umtalsverðan sparnað, eða réttara sagt frestar því vonandi til margra ára að huga þurfi að nýjum urðunarstað með tilheyrandi kostnaði. Timbur er flokkað frá og kurlað niður, sem minnkar rúmmál þess til muna og er jafnvel söluvara.
Á öðrum fundi umhvefisnefndar, sem var s.l. þriðjudag þá heimsótti nefndin Áhaldahúsið og Gáruna og kynnti sér umfang starfseminnar. Þar á bæ eru framkvæmdir við flokkunarkrá á lokametrunum. Flokkunarkráin verður staðsett við austurenda Gárunnar og verður opin öllum þeim sem vilja koma með hefðbundið heimilissorp, allan sólarhringinn. Þannig að aðstaðan fyrir t.d. ferðamenn batnar til mikilla muna. Við hlökkum til að sjá hvernig flokkunarkráin reynist.
Sæmundur Helgason