Samir Mesetovic.

6. sæti

Fullt nafn: Samir Mesetovic.

Hvar fæddist þú og hvenær?  Ég fæddist 28. maí 1970 í Sarajevo höfuðborg Bosníu og Herzegovinu.

Heitir þú eftir einhverjum? Nei, en í Bosníu hafa allir eftirnafn fjölskyldunnar (Mesetovic).

Fjölskylduhagir? Konan mín heitir Loreta Laukyte og hún vinnur í leikskólanum Sjónarhóli. Hún er menntaður efnaverkfræðingur. Börnin okkar eru Eldar 4 ára og Alma 2 ára. Ég starfa hjá Ungmennafélaginu Sindra og er yfirmaður á lager í verslun Nettó í Höfn.

Áhugamál? Ferðalög, tónlist, kvikmyndir, félagsmál og bílar.

Uppáhaldsárstími? Sumarið og Íslandsmótið í fótbolta.

Góður útivistarstaður? Mývatn og allir staðir í kringum Akureyri og auðvitað Jökulsárlón.

Eitthvað sem fáir vita um þig? Ég er yngsta barn í átta manna fjölskyldu. Ég kom í fyrsta skipti  til Íslands árið 2002 til að spila fótbolta með Sindra sem var þá í fyrstu deildinni. Ég hafði þá tíu ára reynslu í atvinnufótbolta í Bosníu og Króatíu. Árið 2003 flutti ég til Fáskrúðsfjarðar til að spila og vinna hjá Leikni Fáskrúðsfirði.
Árið 2005 flyt ég til Reykjavíkur og var þar í 11 ár, vann í  Langholtsskóla, hjá Tæknivörum ehf. og þjálfaði fótbolta hjá Breiðabliki.
Í október 2016 ákvað fjölskyldan að koma til baka til Hafnar í þessa gullfallegu náttúru og góða samfélag. Okkur finnst frábært að fá að taka þátt í uppbyggingu samfélagins hér í Höfn.

Náttúruperla?  Ísland  – við ætlum að keyra hringinn í sumar.

Hvaða persóna/ur hefur haft mest áhrif á þitt líf og skoðanir? Mamma mín, hún kenndi okkur systkinum að vera hreinskilin og heiðarleg og bera virðingu fyrir öllum. Einnig að vera vinnusöm og hafa mikla trú í sjálfum sér í erfiðleikum.

Einkunnarorð? Ég er fyrst og fremst þakklátur fyrir það að vera til. En mér finnst mikilvægt að njóta lífsins, lifa lífinu í friði og vera meðvitaður  um náttúruna okkar.
Ég er líka þakklátur fyrir að kynnast frábæru fólki 3. framboðsins og vera frambjóðandi fyrir kosningarnar 2018 og að fá þannig tækifæri til að koma fram hugmyndum mínum til að bæta samfélagið.