Sigrún Sigurgeirsdóttir.

2. sæti

Fullt nafn: Sigrún Sigurgeirsdóttir.

Hvar fæddist þú og hvenær? Í Reykjavík 3.júlí 1966, flaug svo heim líklega vikugömul og lenti á Fagurhólsmýri þar sem ég óx úr grasi.

Heitir þú eftir einhverjum? Sigrún Þorsteins og mamma voru systradætur og góðar vinkonur, en auðvitað var nafnið valið fyrst og fremst af því foreldrum mínum fannst það fallegt.

Fjölskylduhagir? Ég held heimili með syni mínum, dóttur og tengdasyni.

Áhugamál? Ég nýt þess að lesa bækur, syngja, spila á hljóðfæri, ferðast, vera með fjölskyldunni og fleiri vinum, taka þátt í ýmiskonar félagslífi, læra og vera til!

Uppáhaldsárstími? Allir árstímar eru skemmtilegir: það er dásamlegt þegar fuglarnir koma og gróðurinn lifnar á vorin, að finna angan af nýslegnu grasi á sumrin, að finna ferska loftið þegar fer að kólna á haustin og að vera úti í snjó og stillu á veturna. – Líðandi stund er best!

Góður útivistarstaður í nágrenni við þig? Ég bý í Öræfum, mitt á milli Fjallsárlóns og Skaftafells: hér eru náttúruperlur við hvert fótmál – eins og alls staðar á Íslandi.

Eitthvað sem fáir vita um þig? Eftir útskrift úr sálfræði í Háskóla Íslands flutti ég í Öræfin og varð verslunarstjóri hjá KASK á Fagurhólsmýri. Með batnandi samgöngum og uppgangi hjá Bónus varð reksturinn þar erfiðari og lagðist að endingu af. Þá fór ég að kenna á Hofi: fyrst í leikskólanum, svo í Grunnskólanum í Hofgarði og Öræfadeild Tónskólans. Nú starfa ég hjá Vatnajökulsþjóðgarði í Skaftafelli, hef samt enn tengingu við skólann.

Náttúruperla? Skaftafell.

Hvaða persóna/ur hefur haft mest áhrif á þitt líf og skoðanir? Fjölskyldan auðvitað, en Astrid Lindgren með bókum sínum ýtti undir þá vitund að stúlkur jafnt sem strákar geta náð markmiðum sínum ef þau hafa trú á sjálfum sér og fara sínu fram, án ótta við almenningsálitið.

Einkunnarorð? Njóta tilverunnar og stuðla að friði.