Sigríður Þórunn Þorvarðardóttir.

4. sæti

Fullt nafn: Sigríður Þórunn Þorvarðardóttir.

Hvar fæddist þú og hvenær?  Ég fæddist 21. nóvember 1995, í Reykjavík.

Heitir þú eftir einhverjum? Já, báðum ömmum mínum. Ömmu Siggu (Sigríði) og Ömmu Dúddu (Þórunni). Mér finnst það mikill heiður að vera skírð í höfðuðið á þessum tveimur konum enda kjarnakonur sem hafa kennt mér mikið. Pabbi minn sagði mér einu sinni að ég hafi upphaflega bara átt að heita Sigríður en ég hafi orgað svo mikið sem ungabarn að það nafn eitt og sér hafi ekki nægt persónuleika mínum strax á fyrsta degi.

Fjölskylduhagir? Ég er nýflutt í Miðtún 22 og bý þar með kærustunni minni henni Guðrúnu Ósk. Við erum bara tvær í fjölskyldunni… allavega í bili.

Áhugamál? Lestur, ljóðaskrift, söguskrif, jafnrétti, umhverfið, sálarlífið, vinir mínir og leiklist.

Uppáhaldsárstími? Veturinn. Ég dýrka snjó – mér finnst umhverfið verða svo einstaklega fallegt snævi þakið og svo býður snjórinn upp á svo skemmtilega öðruvísi útiveru, sérstaklega þegar maður starfar á leikskóla eins og ég. Þá elska ég jólin, friðinn og fjölskyldulífið sem því fylgir. Næst á eftir vetri er sumar minn uppáhalds árstími – grill, vinir og gott veður.

Góður útivistarstaður? Þeir eru svo margir, sérstaklega í okkar nánasta umhverfi. Sem dæmi má nefna Haukafell, Hoffell og Lónið.

Eitthvað sem fáir vita um þig? Mér hefur nokkuð oft verið lýst sem opinni bók. En ætli fáir viti af því að eitt sinn lék ég aukahlutverk í heimildarmynd um íslenskar þjóðsögur sem tekin var upp m.a. í Hornafirði og á Vík í Mýrdal. Það er í fyrsta, og líklega eina sinn, sem ég hef séð sjálfa mig á stóra skjánum í bíó.

Náttúruperla? Ísland í heild er auðvitað náttúruperla, en annars er ég mjög hrifin af Skagafirði en þar eigum við fjölskyldan lítinn bústað á Reykjaströnd.

Hvaða persóna/ur hefur haft mest áhrif á þitt líf og skoðanir? Foreldrar mínir hafa auðvitað haft mikil áhrif á mig sem manneskju en þau hafa alltaf hvatt mig til þess að kynna mér hlutina og mynda mínar eigin skoðanir á öllum málefnum. Annars finnst mér vert að nefna hana Hlíf, sem var kennari minn í FAS, en hún er mín helsta fyrirmynd fyrir nám mitt í leikskólakennarafræði en ég þegar ég hugsa um góðan kennara er mér hugsað til hennar.

Einkunnarorð?  Ungt fólk er ekki bara framtíðin heldur líka nútíðin. Vertu manneskjan fyrir aðra sem þú þarfnaðist þegar þú varst yngri.