Á morgun er kjördagur þar sem ný bæjarstjórn verður valin í Sveitarfélaginu Hornafirði. Að því tilefni langar mig að skrifa þennan pistil, þakka fyrir og fara í stuttu máli yfir farin veg s.l. 8 ár.

Í aðdraganda kosninga 2014 var 3.framboðið stofnað. Þar komu saman áhugafólk um það að gera gott samfélag betra og skemmst er frá að segja að þá vann 3.framboðið kosningasigur, með tvo kjörna fulltrúa. Út frá niðurstöðum kosninganna var efnt til meirihlutasamstarfs við D-lista Sjálfstæðismanna. Að mínu mati gekk það samstarf vel. Enda tókst að framfylgja metnaðarfullum málefnasamningi að mestu leyti.

Eftir kosningar 2018 starfaði 3.framboðið í sameinuðum minnihluta með D-lista. Það er mín skoðun að samstarfið í minnihluta hafi verið afar gott. Við gátum í flestum málum beitt okkur fyrir málefnalegri umræðu og góðri niðurstöðu mála. Og það var reyndar líka upplifun mín af samstarfi og samvinnu við núverandi meirihluta og þáverandi minnihluta Framsóknar. Við vorum langoftast sammála um hvernig hlutast ætti til um málin og gerðum okkur grein fyrir að þannig er best að stjórna. Ég vil þakka öllu samferðarfólki mínu í bæjarstjórn fyrir samfylgdina og gefandi samvinnu. Sömuleiðis starfsfólki sveitarfélagsins fyrir ánægjulega samvinnu og góð kynni.

Eðlilega tökumst við á í pólitíkinni og erum ekki alltaf 100% sammála. En það er eðli stjórnmálanna. Mér finnst farsælast að finna sameiginlega sýn og málamiðlun, þó svo að það kosti að ítrustu kröfurnar verði að víkja.

Sem dæmi um þetta má nefna þann vilja allra framboða s.l. 8 ár, að byggja nýtt íþróttahús. Um það eru allir sammála að gott væri að hafa til framdráttar öflugu íþróttastarfi. En í leiðinni verður að finna fjármagn fyrir framkvæmdinni. Þess vegna hefur 3.framboðið beitt sér s.l. 8 ár fyrir líkamsræktaraðstöðu, sem tengist núverandi íþróttamannvirkjum. Þetta var hófstillt kosningaloforð okkar fyrir kosningarnar 2018. Það töldum við skynsamlegt út frá rekstri og því að ábyrgt sveitarfélag sníður sér stakk eftir vexti og fjárhag. Tími stærri íþróttamannvirkja mun koma.

Að lokum… Ég vil hvetja alla Hornfirðinga til að kjósa. Hvetjum unga fólkið okkar og alla nýbúa sem mega kjósa til að nýta kosningarétt sinn til þess að hafa áhrif á næstu 4 ár. Munið að það eru forréttindi að fá að kjósa!

Ég vil ég þakka fyrir stuðninginn og samfylgdina s.l. 8 ár. Einkunarorðin sem við í 3.framboðinu völdum voru; jákvæðni, kraftur og metnaður. Ég vil meina að þannig hafi þessi 8 ár liðið hjá. Mörg jákvæð og kröftug framfaraspor hafa verið stigin og á hverjum tíma höfum við í 3.framboðinu reynt að sinna sveitarstjórnarstörfum af metnaði, fyrir hönd allra íbúa Sveitarfélagsins Hornafjarðar.

Sæmundur Helgason

Skildu eftir svar