Það var margt áhugavert sem koma fram á íbúafundi í Nýheimum í gær um þéttingu byggðar, nýtt byggingasvæði á Höfn og breytingu á ferðaþjónustukafla í aðalskipulagi. En til þessa fundar hafði meirihlutinn boðað m.a. vegna óánægju margra íbúa um fyrirhugaða þéttingu byggðar í Innbæ á Höfn.

Í upphafi fundar rakti bæjarstjóri framvindu málsins um þéttingu byggðar frá hennar bæjardyrum séð. Málið hefur verið í ferli frá 2018. Fram kom á fundinum að fyrst var reynt að fara fram með málið sem óverulega breytingu á aðalskipulagi en Skipulagsstofnun hafnaði því og tók þar undir bókun minnihluta skipulagsnefndar í málinu. Þá var farið af stað með aðalskipulagsbreytingu með tilheyrandi deiliskipulagsvinnu. Í nóvember var haldinn íbúafundur í Nýheimum og hefðbundnar kynningar í framhaldinu. Margvíslegar athugasemdir hafa komið fram í málinu og íbúar í Innbæ og nánasta nágrenni skiluðu nýverið 109 undirskriftum þar sem áformum um þéttingu byggðar er mótmælt harðlega.

Þá komu í máli bæjarstjóra fram ýmsar upplýsingar sem hafa aldrei verið ræddar í skipulagsnefnd eða bæjarráði og ekki komið fram opinberlega í málinu áður. Það kom t.d. fram að fyrr í þessari viku hafði verið haldinn fundur með fulltrúum íbúa í Innbæ til að reyna að leita sátta. Hvers vegna voru ekki aðilar úr minnihluta boðaðir á þann fund? Ber þetta vott um öfluga og góða stjórnsýslu með skýrum verkferlum eins og meirihluti boðaði fyrir síðustu kosningar?

Þá kom fram hjá bæjarstjóra að til stendur að bæta við skilmálum við lóðaúthlutun á svæðinu t.d. um að framkvæmdatími yrði að hámarki tvö ár og þá ætti að setja inn skilyrði um grundun lóðanna. Þá kom fram bæði hjá bæjarstjóra og skipulagstjóra að það verður hugsað fyrir vandamálum sem kunna að koma upp á byggingarstigi! Hvað merkja þessi orð? Væntanlega verður því svarað í deiliskipulagsgerðinni. Og hvað með þá íbúa sen nú hafa áhyggjur af því að nýjar byggingar hafi áhrif á þeirra hús og lóðir? Margvíslegar spurningar komu fram hjá fundarmönnum þar sem þessar áhyggjur voru reifaðar. Það verður að segjast að svörin voru ekki skýr eða sannfærandi. Skilja mátti á svörum bæjarstjóra og skipulagstjóra að bætur væru hugsanlegar en formaður umhverfis- og skipulagsnefndar þvertók fyrir skaðabótaskyldu bæjarins.

Þá kom ítrekað fram hjá mörgum fundarmönnum sú spurning hvers vegna eigi að þvinga í gegn þessu skipulagi þegar svo mikil andstaða er sem raun ber vitni. Það kom líka fram sú spurning hvort meirihluti átti sig á því fyrir hverja þeir eru að vinna því það virðist vera algjör einstefna í þessu máli og það eigi að keyra það áfram í óþökk íbúa. Það er upplifun þeirra sem standa að undirskriftalista að ekki sé hlustað á þau og rök þeirra.

Málefni tvö á fundinum var mun jákvæðara en þar var verið að fjalla um framtíðarbyggingarsvæði í þéttbýlinu á Höfn. Þrjú svæði voru nefnd sérstaklega; Íb 2 sem er austast á Leirunni, Íb 5 sem er austan Hafnarbrautar og norðan tjaldstæðis og nýtt svæði á Ægissíðu sem er ekki inni á gildandi aðalskipulagi.  Var góður rómur gerður að þessum hugmyndum á fundinum.  Þegar var spurt hvers vegna væri ekki farið að huga að næsta svæði fyrir íbúabyggð sagði bæjarstjóri að slíkt ferli tæki langan tíma, eitt til tvö ár og ekki væri byrjað á deiliskipulagsvinnu. Það má benda á að það var eitt fyrsta verk núverandi meirihluta að ráðast í að þétta byggð í Innbæ og í sumar verða komin tvö ár síðan sú vegferð var hafin. Af hverju var þá ekki strax farið að huga að nýju byggingarsvæði til framtíðar? Hefði það verið gert væri vinna við deiliskipulag vel á veg komin og þá hefði ekki peningum verið kastað í deiliskipulagsvinnu sem að líkindum verður aldrei nýtt fái vilji íbúanna fram að ganga.

Þriðja mál á dagskrá var endurskoðun á ferðaþjónustukafla fyrir sveitarfélagið. Það var sérstaklega verið að fjalla um einbeittan áhuga meirihlutans að gera þá breytingu að heimila gistiheimili í flokki 2 inni í íbúðabyggð. Margir fundarmenn töldu þessa vegferð mesta glapræði. Landslög leyfa íbúðareigendum í íbúðabyggð að leigja út húsnæði í 90 daga á ári eða fyrir allt að tveimur milljónum í tekjur. Óþarft væri að víkka þá heimild. Eins og staðan er núna í ferðaþjónstu er ekkert sem kallar á þessar breytingar.

Sæmundur Helgason, bæjarfulltrúi og aðalmaður í umhverfis- og skipulagsnefnd
Hjördís Skírnisdóttir, varamaður í umhverfis- og skipulagsnefnd

Skildu eftir svar