Leikskólinn Sjónarhóll.

Þann 1. nóvember síðastliðinn var Sjónarhóll, nýi leikskólinn á Höfn opinn fyrir gestum og gangandi og nýttu margir tækifærið til að skoða þessa flottu byggingu.

Þegar 3.framboðið varð til árið 2014 kom berlega í ljós mikil óánægja með leikskólamál í samfélaginu. Það varð því eitt af helstu stefnumálum nýs framboðs að koma þeim málum í farveg þannig að sem flestir yrðu sáttir og þjónusta við börn og barnafjölskyldur bætt. Eftir kosningarnar 2014 vann 3.framboðið með sjálfstæðisflokki í meirihluta að því að undirbúa breytingar í leiksskólamálum. Til að framkvæmdin tækist sem best var unnið með hagsmunaaðilum og hlustað á þeirra hugmyndir. Á endanum var ákveðið að endurbyggja og stækka húsnæðið að Lönguhólum og þar er nú 6 deilda leikskóli, hannaður fyrir allt að 144 börn, nýbyggingin er uppá tæpa 500 m2 og endurbætur á öllu húsinu sem áður var leikskólinn Lönguhólar sömuleiðis um 500 m2. Verkefnið var stórt og mjög vandasamt en það er oft erfitt að skeyta saman gömlu og nýju húsnæði svo vel fari. Lögð var áhersla á að vanda allan undirbúning til að útkoman yrði sem best. Það reyndi vel á þolrifin í þessari löngu vegferð og foreldrar, nemendur og starfsfólk leikskólans eiga heiður skilið fyrir þolinmæðina og má segja að nú njóti allir afrakstursins. Það var mikið gleðiefni þegar starfsemi hófst á Sjónarhóli í ágúst síðastliðnum í glæsilegu húsnæði og á vel hannaðri  skólalóð sem mætir nútíma kröfum fyrir leikskólastarfsemi.

Björn Þór Imsland, umsjónar-, eftirlits- og ábyrgðamaður fasteigna kom á fund bæjarráðs  þann 26. október síðastliðinn. Þar sagði hann bæjarráði frá bráðabirgðauppgjöri varðandi leikskólann Sjónarhól. Nú hafa verið borgaðar 581 milljón fyrir verkið sem þýðir að kostnaður er um 1,6% umfram áætlun og verður það að teljast býsna gott. Það hversu vel tókst til er ekki síst góðri undirbúningsvinnu að þakka. Verktakar sem að stærstum hluta voru heimamenn og starfsfólk sveitarfélagsins sem vann að þessum málum eiga miklar þakkir skildar fyrir sína aðkomu að verkefninu.  3. framboðið er stolt að því að hafa átt frumkvæði að þessum breytingum og ná að fylgja þeim eftir á síðasta kjörtímabili. Við óskum nemendum og starfsfólki á Sjónarhóli alls hins besta og nú verður vonandi sátt um leikskólamál í sveitarfélaginu okkar.

3.framboðið

Skildu eftir svar