Vegna vegalengda þurfa Öræfingar að vera sjálfum sér nógir með ýmsa þjónustu og afþreyingu. Grunnskólinn í Hofgarði og Leikskólinn Lambhagi eru þó að sjálfsögðu í góðu samstarfi við systurskólana á Höfn.

Ýmis félög starfa í Öræfum, þar á meðal er Ungmennafélag Öræfa, UMFÖ. Fastir liðir eru útisamkoma á 17. júní og jólaskemmtun, en auk þess er boðið upp á ýmsa viðburði yfir árið sem tengjast fræðslu, menningu eða útivist. Á síðasta ári voru það gönguferðir, sumarball, handavinnukvöld og bókmenntakynning. Stjórn UMFÖ hefur alltaf tekið því fegins hendi þegar einhver áhugasamur vill standa fyrir uppákomu, en allir viðburðir á vegum félagsins eru opnir öllum óháð félagsaðild.

Þegar ég var að alast upp voru Öræfin landbúnaðarhérað og leiðin hingað lá um Flugvöllinn á Fagurhólsmýri, en þangað var áætlunarflug. Þegar byggð var brú yfir Jökulsá á Breiðamerkursandi varð auðveldara fyrir ferðamenn að aka hingað og þjóðgarður var stofnaður í Skaftafelli fyrir 50 árum til að mæta þörfum þeirra sem vildu koma til að njóta útivistar og náttúrufegurðar. Seinna varð sá þjóðgarður hluti af Vatnajökulsþjóðgarði og nú hefur orðið gríðarleg breyting á samfélaginu okkar. Ferðaþjónustan er orðin öflug stoð undir atvinnulífið allt árið um kring og vonandi berum við gæfu til að hlúa að atvinnugreininni þannig að hún megi dafna í sátt við íbúa og gesti.

Einangrun getur þó stundum verið jákvæð! Kindur í Öræfum hafa notið náttúrulegrar verndar jökulvatnanna, stofninn hefur sloppið við ýmsa sjúkdóma og bændur víða um land geta því keypt fé héðan ef þeir þurfa að endurnýja bústofn sinn.

Samsetning íbúa hefur breyst í takt við breytingar á atvinnuháttum og samgöngum. Eitt elsta stóra ferðaþjónustufyrirtækið okkar er Hótel Skaftafell í Freysnesi með um 50 heilsársstarfsmenn (með lögheimili í sveitarfélaginu) og í kringum 20 sumarstarfsmenn til viðbótar.

Á síðustu árum hefur erlendum íbúum fjölgað, sérstaklega í tengslum við ferðaþjónustuna. Það er vaxandi verkefni fyrir okkur að finna leiðir til að tengja saman íbúa úr ólíkum áttum, auðvelda erlendum íbúum að læra tungumálið okkar og að verða þátttakendur í samfélaginu. Mikil ánægja hefur verið með íslenskunámskeiðin sem haldin hafa verið í Öræfum, þar hefur verið unnið gott starf.

En ég tel einnig mikilvægt að nýta tæknina, nú er hægt að halda fundi í nefndum og ráðum í gegnum Skype tölvubúnað og það gefur okkur möguleika á að efla samskipti milli íbúa í sveitum og þéttbýli og í einhverjum tilvikum að spara akstur.

Tækniframfarir hafa opnað nýja möguleika í kennslu. Gaman væri að geta boðið aldurshópnum 40 + tækifæri til að bæta við sig þekkingu: í þeim hópi eru t.d. margir sem ekki nutu tungumálakennslu á sínum tíma en bættar samgöngur út í heim og nýbúar frá framandi löndum gefa okkur aukin tækifæri ef við tölum fleiri tungumál en íslensku. Ég vil gjarna sjá öflugt félagsstarf fyrir 50 ára og eldri þar sem hugað er að leiðum til að virkja alla íbúana, óháð búsetu. Við þurfum að hafa hugfast að sveitirnar græða á góðu þjónustustigi í þéttbýlinu og Hafnarbúar græða á sterku samfélagi í sveitunum, við þurfum að vinna saman.

Sigrún Sigurgeirsdóttir, 2. sæti á lista 3.framboðsins

 

 

Skildu eftir svar