Erindi flutt á bæjarstjórnarfundi 14. desember 2017.

Það árar vel. Fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Hornafjarðar fyrir árið 2018 er ánægjulegt plagg og ástæða fyrir okkur að vera stolt af því. Ég vil þakka öllum þeim sem komu að því að skrúfa saman þessa áætlun, starfsmönnum sveitarfélagsins sérstaklega. Þetta er síðasta fjárhagsáætlunin sem meirihluti Sjálfstæðisflokks og 3.Framboðsins leggur fram á þessu kjörtímabili. Bak við fjárhagsáætlunina liggur mikil vinna, sem mér finnst hafa unnist vel, í ágætu samtali meirihlutans við minnihluta Framsóknarflokks. Mér finnst áætlunin sýna að við erum í raun sammála um mjög margt sem er áætlað er að framkvæma, en auðvita ekki allt.

Það árar vel. Ég fagna því að geta sveitarfélagsins til að standa í fjárfrekum framkvæmdum hefur aukist til muna á kjörtímabilinu. Framkvæmdir sem áætlað er að fara í árið 2018 eru um 800 milljónir, en voru í upphafi kjörtímabils 300-350 milljónir. Það þótti ekki lítið þá. Skuldahlutfall hefur sjaldan verið lægra er nú komið niður fyrir 50%, en verður rétt um 60% ef verður af boðaðri lántöku. Framlegðin, sem er veltufé sem hlutfall af tekjum, var lengi á bilinu 12-15% og þótti gott en er núna komin í 23%. Það er borð fyrir báru í rekstri sveitarfélagsins.

Það árar vel. Þessi sterki rekstur gerir það að verkum að engin lán hafa verið tekin síðan sumarið 2014. Verkefnin sem við stöndum í og höfum fram undan okkur eru stór og metnaðarfull. Við munum klára bygginu nýs leikskóla, höldum áfram með hreinsimannvirki fyrir skólp og fráveituna, byggjum leiguíbúðir, bæði hér á Höfn og í Öræfum. Götur og gangstígar verða malbikaðir í vor, ljósleiðari verður lagður í Nesjum og á Mýrum. Eitt það ánægjulegasta er að farið verður af stað með hönnun og byggingu á langþráðu hjúkrunarheimili, auk margra smærri en þýðingarmikilla verkefna. Þetta eru allt verkefni sem mörg sambærileg og jafnvel mun stærri sveitarfélög geta bara látið sig dreyma um.

Það árar vel. Við búum í þróttmiklu samfélagi, hér hefur íbúum fjölgað um nærri 5% milli ára eða um 109 manns á þessu ári. Núna búa hér 2296 manns (1.nóv 2017). Atvinnuleysi þekkist vart. Þrátt fyrir fólksfjölgun þá virðist eitt helsta áhyggjuefnið vera að okkur vantar fleira fólk til að byggja enn frekar upp okkar fína samfélag í Sveitarfélaginu Hornafirði. Innviðir okkar eru flestir afar sterkir og með fjölgun íbúða og leiguhúsnæðis þá getum við vel tekið á móti fleira fólki.

Það afar ánægjulegt að á bæjarstjórnarfundi 14. desember samþykktu allir sjö bæjarfulltrúar framlagða fjárhagsáætlun. Og henni fylgdu góð orð enda mörg verkefni á döfinni, samfélaginu til heilla.

Sæmundur Helgason

Skildu eftir svar