Sveitarfélagið Hornafjörður vinnur nú að gerð atvinnustefnu þar sem leitast verður við að móta framtíðarsýn fyrir atvinnumál í sveitarfélaginu með það að markmiði að auka lífsgæði íbúa og rekstrarskilyrði fyrirtækja sem og frumkvöðla á staðnum. Verkefnið er unnið í samstarfi við SASS, sem leiðir vinnuferlið.

Til að vel takist til er mikilvægt að sjónarmið sem flestra fái notið sín í stefnumótuninni og munu íbúar og forráðamenn fyrirtækja í Sveitarfélaginu Hornafirði því fá senda skoðanakönnun tengda atvinnumálum í  sveitarfélaginu nú á næstu dögum. Könnunin verður rafræn og mun tengill á hana berast í tölvupósti til aðila. Einnig verður  hægt að svara henni inni á heimasíðu sveitarfélagsins, www.hornafjordur.is,  auk þess sem kostur verður á að svara henni í tölvu hjá þjónustufulltrúa í móttöku ráðhússins. Þátttaka íbúa og fyrirtækja í gerð atvinnustefnunnar er mikilvægur hlekkur í þeirri vinnu sem er framundan og vonumst við til góðrar þátttöku.

Vinna við stefnuna hefur þegar hafist innan stjórnsýslunnar þar sem allar nefndir sveitarfélagsins hafa skilgreint þeirra þátt í atvinnumálum á svæðinu, auk þess að nefna atriði sem aðrar nefndir geta unnið að. Munu niðurstöður úr þeirri vinnu sem og þeim könnunum sem nú verða lagðar fyrir verða notaðar við vinnslu stefnunnar, auk þess sem niðurstöður af vel sóttu íbúaþingi í sveitarfélaginu frá árinu 2011 verða hafðar til hliðsjónar. Haldin verður vinnustofa undir handleiðslu SASS þann 27. maí n.k. þar sem stjórnsýslan leggur drög að stefnunni byggðum á ofangreindum gögnum.

Kæru íbúar, með því að vera meðvituð um það sem vel er gert, koma auga á það sem betur mætti fara og greina sóknarfærin ættum við að vera í stakk búin til að taka ákvarðanir sem leiða til frjórri jarðvegs fyrir atvinnulífið í heild sinni. Öll viljum við að í boði séu góð störf á fjölbreyttum sviðum í samfélaginu okkar.  Til þess að svo megi verða þarf ákvarðanataka í þeim fjölmörgu málaflokkum sem snerta atvinnulíf að vera samræmd í markvissri viðleitni við að skapa góð skilyrði. Í nýrri atvinnustefnu verður leitast við að skilgreina verkefni og aðgerðaráætlun í samvinnu við hlutaðeigandi aðila með það að markmiði að nýta sóknarfærin og stuðla að blómlegu atvinnulífi á fjölbreyttum sviðum.

Það er von okkar að sem flestir gefi sér tíma til að svara könnuninni og leggja okkur þannig lið við gerð atvinnustefnu til framtíðar.

Virðingarfyllst,
Ragnheiður Hrafnkelsdóttir, formaður Atvinnumálanefndar

Skildu eftir svar