Fræðslu- og tómstundarnefnd ákvað á fundi sínum 21. janúar síðastliðinn að leggja til að tómstundastyrkurinn hækkaði um 100% og verði kr. 40.000- á barn. Einnig að styrkurinn verði greiddur fyrir börn frá 6 – 18 ára en hann var áður fyrir 6 – 16 ára. Að öðru leiti verði reglur um styrkinn óbreyttar en þær má finna á heimasíðu sveitarfélagsins hornafjordur.is/stjornsysla undir umsóknir. Tillagan var samþykkt af bæjaráði og tekur hún gildi í janúar 2015.

Þessi breyting er í samræmi við málefnasamning meirihlutans um að auka þátttöku barna og unglinga í æskulýðs- og tómstundastarfi ásamt því að koma til móts við barnmargar fjölskyldur. Á unglingsárunum verður mest brottfall úr íþróttum og tómstundum og oft eru unglingar farnir að taka sjálfir þátt í kostnaði sem hlýst af þátttökunni. Með aukinni niðurgreiðslu og hækkun upp í 18 ár er þess vænst að það dragi úr brottfalli unglinga. Einnig er þess vænst að þetta auðveldi börnum og unglingum að stunda fjölbreyttari tómstundir. Starfshóp um íþrótta- og tómstundmál hefur svo verið falið að yfirfara reglur um styrkinn.

Hjálmar J. Sigurðsson formaður Fræðslu- og tómstundanefndar.

Skildu eftir svar