• Post category:Greinar
  • Post comments:1 Comment

Ræða Sæmundar Helgasonar flutt á bæjarstjórnarfundi 5. febrúar 2015

Bæjarstjórn Hornafjarðar hefur á undanförnum misserum ályktað og komið því að á öllum fundum sem mögulegt er, hversu mikilvægt er að hraða uppbyggingu á hjúkrunarrýmum við HSSA, sem nú heitir HSU – á Hornafirði. Deiliskipulag fyrir fyrirhugaðar byggingar er á lokametrum og því er í raun ekkert til fyrirstöðu að hefjast handa um leið og grænt ljós kemur frá ríkinu um fjármagn. Það er nefnilega þannig að ríkið leggur til 85% á móti 15% framlagi okkar. Þetta þýðir að ef við segjum að svona bygging muni kosta milljarð þá er hlutur Sveitarfélagsins okkar 150 milljónir. Ég held að ég geti verið fullviss um að við munum öll samþykkja að taka á því fljótt og vel enda höfum við borð fyrir báru til lántöku þegar til þess kemur.

En það þarf tvo í þennan dans. Og svörin sem sveitarfélagið fær frá hinum dansaðilanum, ríkinu, eru í raun engin. Við vitum ekkert og fáum ekkert að vita hvort og hvenær verður farið af stað í uppbygginguna.

Á undanförnum árum hafa nokkur sveitarfélög á landinu farið þá leið að fjármagna uppbyggingu á hjúkrunarrýmum gegnum Íbúðarlánasjóð eða aðra lánveitendur. Þetta eru sveitarfélög eins og Egilsstaðir, Akureyri og Borgarnes svo dæmi séu tekin. Þetta var leið sem fráfarandi ríkisstjórn gerði færa með samningum við málsaðila. Leiðin hefur stundum verið nefnd Árna Páls-leiðin. Og til að útskýra þetta aðeins betur þá var það þannig að í stað þess að ríkið legði til 85% þá tóku sveitarfélögin þessi 85% að láni hjá Íbúðarlánasjóði með samning um að ríkið borgaði á hverju ári niður lánshlutann. Þetta gæti við fyrstu sýn verið frábær lausn, fyrir okkur líka. Þessi leið er að vísu ekki fær lengur, hana hafa núverandi stjórnvöld skrúfað fyrir. Og nú virðist sem algert frost sé komið á framkvæmdir í þessum málaflokki.

En þessi leið, Árna Páls-leiðin er þegar nánar er skoðað miklu mun dýrari fyrir sveitarfélögin og e.t.v. ekki skynsöm. Það skýrist einfaldlega af því að vextir og verðbætur af láninu falla á sveitarféögin, ekki ríkið. Það þýðir að þegar upp verður staðið og framkvæmdirnar greiddar að fullu þá munu viðkomandi sveitarfélög hafa greitt 30-40% hlutdeild í framkvæmdinni. Semsagt sín 15% + vexti og verðbætur af 85% sem ætti að vera hlutdeild ríkisins. Værum við tilbúin í það?

Á fundi SASS, 16. janúar s.l. fór Unnur Þormóðsdóttir, bæjarfulltrúi í Hveragerði, stuttlega yfir fyrirhugaða skýrslu eða Stöðugreiningu á hjúkrunarrýmum á Suðurlandi. Undir hennar verkstjórn hefur SASS, á haustmánuðum 2014, látið vinna skýrslu sem unnin hefur verið uppúr spurningarlistum sem beint var til allra hjúkrunarforstjóra og allra sveitarfélaga á svæðinu.  Gert er ráð fyrir að áfangaskýrslan verði tilbúin fljótlega. Í skýrslunni mun vera tekið saman hver þörfin er á hjúkrunarrýmum á hverjum stað í kjördæminu.

Eitt hef ég rekið mig á í samtali við kollega mína í stjórn SASS að þar færa allir sín rök fyri því að löngu sé tímabært að bæta, breyta og byggja… hjá þeim fyrst. Og auðvitað færum við rök fyrir okkar sérstöðu varðandi það að geta ekki notið samlegðaráhrifanna sem félagar okkar hafa tryggt sér í gegnum samvinnuna sem þeir eiga um málaflokkinn. Landfræðileg staða okkar gefur okkur ekki kost á því samstarfi.

Það er ljóst þegar þessi málaflokkur er skoðaður á landsvísu að mörg sveitarfélög bíða úrbóta og vænta þess að ríkið komi að uppbyggingu hjúkrunarrýma. Þörfin fyrri hjúkrunarrýmin er mikil og er í takti við mannfjöldaþróun. Þegar horft er inn í framtíðina, bæði hér hjá okkur og á landsvísu þá má öllum vera ljóst að þeim sem þurfa á hjúkrunarrýmum að halda mun fjölga umtalsvert.

Vandinn sem blasir við okkur er sá, ólíkt því sem t.d. er gert varðandi samgöngur og samgönguáætlun, að svo virðist sem ekki liggi fyrir nein áætlun hjá Velferðarráðuneyti um uppbyggingu hjúkrunarrýma. Hvenær megum við vænta þess að hafist verður handa? Hvar erum við í röðinni? Hvenær getum við dansað saman?

Þessari hugrenningu minni um málið fylgir bókun frá Bæjarstjórn þar sem velferðarráðherra er hvattur til að upplýsa okkur um það hvenær við getum hafið uppbygginu á hjúkrunarrýmum við Hsu á Hornafirði.

Bókun:
Bæjarstjórn Hornafjarðar hvetur velferðarráðherra til að hefja vinnu við nýja framkvæmdaráætlun á uppbyggingu hjúkrunarheimila. Bæjarstjórn Hornafjarðar leggur mikla áherslu á þörfina fyrir hjúkrunarrými hjá HSu á Hornafirði og bendir á fyrri bókanir í því samhengi. Við treystum á að vera framalega, ef ekki fremst, í framkvæmdaáætlun Velferðarráðuneytisins.

Skildu eftir svar

This Post Has One Comment